Félag rithöfundanna

Félag rithöfundanna eða The Authors’ Club er krikketlið frá Lundúnum, sem einvörðungu er skipað starfandi rithöfundum. Liðið var upphaflega stofnað 1891, og á sínum tíma iðkuðu höfundar á borð PG Wodehouse og Arthur Conan Doyle krikketlist sína með því. Um tíma státaði liðið einnig af sumum af sterkustu krikketleikurum Lundúnaborgar, en þrátt fyrir bæði íþrótta- og bókmenntalega yfirburði lognaðist starfsemi þess út af snemma á tuttugustu öld. Árið 2012 var liðið endurvakið undir stjórn Charlie Campbell og Nicholas Hogg, sem báðir hafa ritað bækur um þessa einstöku íþrótt – íþrótt sem á margan hátt endurspeglar bæði þjóðarsál og sögu breska samveldisins. Meðal leikmanna sem von er á til Íslands eru rithöfundarnir Sebastian Faulks, William Fiennes og Tom Holland. Á Bókmenntahátíð í Reykjavík 2017 gefst gestum færi á að láta liðsmenn Rithöfundanna leiða sig inn í æðstu helgidóma krikketsins á sérstakri krikketkynningu, sem að sjálfsögðu verður haldin utandyra.