Orðstír: Heiðursviðurkenning til þýðenda íslenskra bókmennta á önnur mál

Umræður og spjall í tilefni af því að nú hefur í fyrsta sinn verið veitt heiðursviðurkenning til þýðenda íslenskra bókmennta á önnur mál. Í pallborðinu verða handhafar heiðursviðurkenningarinnar, þau Catherine Eyjólfsson og Erik Skyum-Nielsen, ásamt rithöfundunum Bergsveini Birgissyni og Auði Övu Ólafsdóttur. Pallborðinu stýrir Ólöf Pétursdóttir þýðandi.

ORÐSTÍR

Útbreiðsla íslenskra bókmennta erlendis hefur aukist jafnt og þétt á liðnum árum og áratugum. Ötult og óeigingjarnt starf fjölmargra snjallra þýðenda hefur skipt sköpum í því sambandi. Í mörgum tilvikum hafa þeir orðið öflugir sendiherrar íslenskrar menningar á erlendum vettvangi. Heiðursviðurkenningunni ORÐSTÍR, sem merkir bókstaflega heiður eða sæmd (tír) orðsins, er ætlað að vekja athygli á ómetanlegu starfi þessara fjölmörgu einstaklinga, ásamt því að vera þakklætisvottur og hvatning til þeirra þýðenda sem viðurkenninguna hljóta hverju sinni. Viðurkenningin er veitt annað hvort ár, einum eða tveimur einstaklingum sem hafa þýtt verk úr íslensku á annað mál með vönduðum hætti og með þeim árangri að aukið hafi hróður íslenskrar menningar á erlendum vettvangi. Hluti af viðurkenningunni er veglegur dvalarstyrkur sem er ætlað að auðvelda þýðendum að styrkja tengslin við menningu frummálsins eða markmálsins. Að þessu sinni var ákveðið að heiðra tvo þrautreynda og afkastamikla þýðendur, þau Catherine Eyjólfsson, sem þýðir af íslensku á frönsku, og Erik Skyum-Nielsen, sem þýðir af íslensku á dönsku.

Erik Skyum-Nielsen, ötull þýðandi íslenskra bókmennta á dönsku

Erik Skyum-Nielsen er menntaður bókmenntafræðingur og virtur bókmenntagagnrýnandi. Hann hefur undanfarin 40 ár verið ötull og áhrifaríkur sendiherra íslenskra bókmennta í Danmörku, eða allt frá því að hann var ráðinn sendikennari í dönsku við Háskóla Íslands um miðjan áttunda áratuginn. Hann hefur þýtt yfir 40 íslensk verk á dönsku, þar á meðal fornsögur og eddukvæði en einnig ljóð, skáldsögur og leikrit eftir samtímahöfunda, m.a. Svövu Jakobsdóttur, Thor Vilhjálmsson, Stefán Hörð Grímsson, Birgi Sigurðsson, Fríðu Á. Sigurðardóttur, Gyrði Elíasson og Gerði Kristnýju. Samhliða hefur Erik fjallað um íslenskar bókmenntir í ræðu og riti við margvísleg tækifæri. Fyrstu þýðingar Eriks komu út árið 1981, annars vegar smásögur eftir íslensk samtímaskáld, hins vegar úrval ljóða eftir ungt íslenskt ljóðskáld, Einar Má Guðmundsson, sem hafði ári fyrr sent frá sér fyrstu tvær ljóðabækur sínar. Erik hefur allar götur síðan þýtt allflest verk Einars á dönsku skömmu eftir að þau hafa komið út á íslensku og lagt þannig grunn að þeim vinsældum sem Einar hefur notið í Danmörku. Að nokkru leyti greiddu þessar dönsku þýðingar Einari og fleiri íslenskum samtímahöfundum leið á aðra markaði, ekki síst á Norðurlöndum og í Þýskalandi.

Catherine Eyjólfsson hefur þýtt yfir 40 verk íslenskra höfunda á frönsku

Á síðari árum hefur orðstír íslenskra bókmennta í Frakklandi vaxið til muna. Íslensk fornrit og rit Halldórs Laxness náðu ágætri fótfestu á frönskum bókamarkaði á tuttugustu öld en frá aldamótum hefur þýðingum á íslenskum samtímaskáldskap fjölgað og þær vakið verðskuldaða athygli. Meðal þeirra sem eiga ríka hlutdeild í þessari velgengni er Catherine Eyjólfsson sem fluttist til Íslands frá Frakklandi árið 1972, starfaði lengi sem frönskukennari en sneri sér á tíunda áratugnum að þýðingum. Hún hefur þýtt yfir 40 íslensk verk, þar á meðal skáldsögur og ljóð eftir mörg fremstu núlifandi skáld þjóðarinnar, svo sem Auði Övu Ólafsdóttur, Einar Má Guðmundsson, Guðberg Bergsson, Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Gyrði Elíasson, Ingibjörgu Haraldsdóttur, Lindu Vilhjálmsdóttur, Pétur Gunnarsson, Sigurbjörgu Þrastardóttur, Sjón, Steinunni Sigurðardóttur, Svövu Jakobsdóttur og Thor Vilhjálmsson. Sum þessara verka hafa verið tilnefnd til virtra verðlauna, nú síðast þýðing Catherine á Svari við bréfi frá Helgu eftir Bergsvein Birgisson sem tilnefnd er til verðlauna sem háskólinn í Lille veitir höfundi og þýðanda í sameiningu.

Að viðurkenningunni standa Miðstöð íslenskra bókmennta, Bandalag þýðenda og túlka, Íslandsstofa, embætti forseta Íslands og Bókmenntahátíð í Reykjavík.

Pallborðið fer fram á íslensku.