David Nicholls, heimsþekktur rithöfundur og handritshöfundur

David Nicholls (1966) er breskur höfundur fjögurra skáldsagna sem allar hafa hlotið mikið lof og náð miklum vinsældum. Þá er hann líka handritshöfundur og hefur skrifað handrit fyrir leiksvið, sjónvarp og kvikmyndir. Hann lærði leiklist og starfaði sem leikari áður en hann sneri sér alfarið að skrifum. Fyrir utan eigin handrit hefur hann líka aðlagað þekkt verk eins og “Much Ado About Nothing” eftir Shakespeare fyrir BBC.

Hal Shinnie

David Nicholls (photo by Hal Shinnie)

Fyrsta skáldsaga Nicholls, “Starter for Ten”, kom út árið 2003 og hann skrifaði jafnframt handritið að bíómyndinni sem kom út árið 2006 . Framleiðandi myndarinnar var Tom Hanks og myndin skartaði leikaranum James McAvoy. Næst kom út bókin “The Understudy” árið 2005 og í kjölfarið fylgdi “One Day”, sem gerð var bíómynd eftir árið 2011, með leikurunum Anne Hathaway og Jim Sturgess í aðalhlutverkum. Bókin kom út í íslenskri þýðingu hjá Bjarti undir heitinu Einn dagur.

Nýjasta bók Nicholls  “Us” kom út síðastliðið haust. Hún var nýverið gefin út hjá Bjarti í íslenskri þýðingu undir titlinum “Við”.  Bókin hlaut frábærar viðtökur og var meðal annars tilnefnd til Man Booker verðlaunanna og var lýst sem hinni fullkomnu bók“ af breska dagblaðinu The Independent.

Í bókinni segir frá lífefnafræðingnum Douglas Petersen sem reynir að bjarga hjónabandinum með því að leggja upp í mikla menningarreisu um Evrópu ásamt eiginkonu og syni. Á ferð um París, Amsterdam, Feneyjar og Flórens skerast í leikinn óður harmóníkuleikari, fjölþjóðlegir vopnasalar og lögreglan, og sú spurning verður áleitin hvort menningarreisur séu heppilegar til að bjarga hjónaböndum og bæta sambandið við börnin.

Pallborðsumræður: Sögur sem ferðast og breytast