Bókmenntahátíð og PEN þingið gera samning við prentsmiðjuna Odda

handsal

Prentsmiðjan Oddi, PEN á Íslandi og Bókmenntahátíð í Reykjavík hafa gert með sér samning sem felur í sér að prentsmiðjan Oddi styrkir þingið og Bókmenntahátíðina með því að prenta án endurgjalds allt efni sem gefið verður út í kringum alþjóðalega ráðstefnu PEN samtakanna, PEN International, og Bókmenntahátíð í Reykjavík sem fram fara á sama tíma nú í annarri vikunni í september.

PEN International eru samtök rithöfunda, ritstjóra, þýðenda og blaðamanna sem vilja standa vörð um tjáningarfrelsið og berjast fyrir þeim málstað víða um heim. Samtökin voru stofnuð árið 1921 og á hverju ári síðan 1923 hafa þau haldið þing samtakanna með þátttöku frá PEN-félögum hvaðanæva að úr heiminum og verður þingið í Reykjavík engin undantekning þar á.

Þetta þing er sérstakt því það mun vera hið fyrsta sem haldið er í svo náinni samvinnu við bókmenntahátíð fundarstaðarins. Það sýnir hversu mikillar virðingar Bókmenntahátíð í Reykjavík nýtur á alþjóðlegum vettvangi, en hátíðin hefur verið haldin annað hvert ár að jafnaði síðan árið 1985. Bókmenntahátíð og PEN-þingið munu standa fyrir opinni dagskrá í Hörpu og í Norræna húsinu 11. og 12. september, þegar þinginu lýkur, en hátíðin stendur svo áfram til 15. september.

PEN-samtökin og Bókmenntahátíð í Reykjavík leituðu til prentsmiðjunnar Odda um samstarf og stuðning. Prentsmiðjan Oddi er leiðandi prentsmiðja á Íslandi og hefur frá stofnun verið í fararbroddi í þjónustu og frágangi, ekki síst þegar prentun snýr að bókum. Prentsmiðjan Oddi býr að auki yfir góðum tengslum inn í bókaútgáfu víða í heiminum og mun samstarfið auka þau tengsl enn frekar.