Bókmenntahátíð í Reykjavík þakkar fyrir sig í ár

Elleftu Bókmenntahátíðinni í Reykjavík er nú lokið og óhætt er að segja að hátíðin hafi lukkast einstaklega vel í ár og hér er hægt að skoða myndir frá hátíðinni. Sautján erlendir höfundar sóttu hátíðina ásamt tólf erlendum útgefendum og umboðsmönnum og sjö erlendum blaðamönnum. Þá tóku þátt tíu íslenskir höfundar og fjöldi fólks, þýðendur og spyrlar, komu að hátíðinni með einum eða öðrum hætti. Skulu þeim öllum færðar þakkir hér með.

Bókmenntahátíð vill jafnframt koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem sóttu viðburði hátíðarinnar og til samstarfsaðila og stuðningsaðila, sem voru fjölmargir. Hátíðin er lesendahátíð og miðað við þann fjölda gesta sem sóttu viðburði eru íslenskir lesendur alltaf jafnáhugasamir um nýjar og spennandi bækur og höfunda.

Á hátíðinni var tjáningarfrelsið mjög til umræðu í ár vegna samstarfsins við PEN International, en árlegt þing samtakanna var haldið á Íslandi samhliða Bókmenntahátíðinni. 300 rithöfundar voru staddir í bænum þessa viku og settu óneitanlega svip sinn á stemninguna. Þá var einnig áberandi þema á hátíðinni rithöfundar í útlegð, en þrír erlendir höfundar sem hafa skrifað í útlegð tóku þátt: Mazen Maarouf frá Palestínu, Svetlana Alexievitch frá Hvíta-Rússlandi og Antonio Skármeta frá Chile.

Hægt er að rifja upp dagskrá hátíðarinnar með því að hlusta á upptökur Rásar eitt, en Rás eitt  hélt úti viðamikilli dagskrá dagana fyrir hátíð og á hátíðinni sjálfri.  Nálgast má alla þættina hér og gaman er að rifja upp einstaka höfunda með því að hlusta á þessa þætti.

Svo má líka lesa ræður erlendra sem voru fluttar við opnun Bókmenntahátíðar í Reykjavík árið 2013. Fransk-kongóski höfundurinn Alain Mabanckou fjallaði um sjálfstæðisbaráttu Afríku og tjáningarfrelsið í afar áhrifamikilli ræðu við setningu Bókmenntahátíðar í Norræna húsinu: Alain Mabanckou_opnun.

Sama kvöld flutti John Ralston Saul, forseti PEN International, ávarp á sameiginlegu upplestrarkvöldi Bókmenntahátíðar og PEN International í Eldborg í Hörpu: John Ralston Saul Opnunarræða_Reykjavik 2013_þýðing.

Á Facebook-síðu Bókmenntahátíðar má sjá myndir frá ýmsum viðburðum, svosem upplestrum í Hörpu, Iðnó og Norræna húsinu, útgefendamálþingi, viðtölum og svo að sjálfsögðu Bókaballinu sem tókst svo einstaklega vel í ár.

Í Iðnó @ Magnús Helgason Svetlana Alexievitch / Steve Sem-Sandberg @ Magnús Helgason Á Bókaballi @Magnús HelgasonNew Voices Awards @Magnús Helgason