Bókmenntahátíð í Reykjavík og Norræna húsið undirrita samstarfssamning

Bókmenntahátíð í Reykjavík og Norræna húsið hafa gert með sér samstarfssamning sem felur í sér að Norræna húsið verður einn af aðalstyrktaraðilum hátíðarinnar. Max Dager forstjóri Norræna hússins og Sigurður G. Valgeirsson formaður stjórnar Bókmenntahátíðar í Reykjavík skrifuðu undir samninginn.

Bókmenntahátíð í Reykjavík og Norræna húsið eiga að baki farsælt samstarf en Norræna húsið er heimahús Bókmenntahátíðar í Reykjavík og hefur verið frá því hátíðin var haldin fyrst árið 1985. Samstarfið byggir á traustum grunni og með nýju samkomulagi er enn styrkari stoðum rennt undir það.

Næst verður Bókmenntahátíð í Reykjavík haldin í september 2013 og verður sú hátíð hin ellefta í röðinni. Hátíðin nýtur mikillar virðingar og þykir ein mikilvægasta bókmenntahátíðin í Norður-Evrópu. Þá er hún afar vinsæl meðal erlendra rithöfunda og útgefenda, en erlendum útgefendum er jafnan boðið á hátíðina til þess að kynna fyrir þeim íslenskar bókmenntir og styrkja tengsl þeirra við íslenska höfunda.

Á meðal gesta á síðustu hátíð, sem haldin var í september 2011, voru Nóbelsskáldið Herta Müller frá Þýskalandi og egypska baráttukonan Nawal El Sadaawi.

Meðfylgjandi mynd frá undirritun samningssins í Norræna húsinu. Frá vinstri Einar Kárason, Sjón, Stella Soffía Jóhannesdóttir, Max Dager, Sigurður G. Valgeirsson, Halldór Guðmundsson, Örnólfur Thorsson, Þorgerður Agla Magnúsdóttir og Pétur Már Ólafsson.