Bækur í sumarfríið

SumarlesturFjölmiðlar keppast nú við að birta ýmsa lista yfir bækur sem eru góðar í sumarfríið. Guardian birti t.d. lista yfir þær bækur sem ýmsir rithöfundar myndu pakka ofan í tösku og NPR er með alls konar lista yfir sumarbækur. Bókmenntahátíð í Reykjavík er með sinn eigin skothelda lista þetta sumarið sem óneitanlega tekur mið af höfundalista ársins. Hér eru nefndar tvær bækur sem finna má á náttborði einu hér í borg.

demain-j-aurai-20-ans_book_medium

Demain j’aurain vingt ans (ísl. Ég verð tvítugur á morgun) eftir Alain Mabanckou er hlý og bráðfyndin frásögn sem byggir á æsku höfundarins. Hér segir frá tíu ára dreng sem sem elst upp í Pointe Noire í Kongó í upphafi áttunda áratugarins. Lesendur kynnast fjölskyldu hans og aðstæðum og sjá heiminn með saklausum augum drengsins. Margt kemur lesandanum og drengnum undarlega fyrir sjónir, til dæmis birtingarmyndir kommúnismans en á heimili frænda hans hanga myndir af Marx og Engels (sem drengurinn telur að hljóti að vera tvíburar því þeir eru með eins skegg, hugsa það sama og þegar þeir hugsa það sama skrifa þeir um það saman í bók!). Undir frásögninni hljómar tónlist frá Vesturlöndum í gegnum útvarpið svo úr verður heillandi blanda af kongólskum veruleika og vestrænum áhrifum. Bókin er skrifuð á frönsku en hefur verið þýdd á ensku og sænsku, svo dæmi séu nefnd.

SumarhusSumarhús með sundlaug eftir Herman Koch fjallar hreint ekki um afslöppun í sumarhúsi með sundlaug, en bókin er þó kjörin til þess að taka með sér á slíkan stað. Hér er á ferðinni æsispennandi og dramatísk frásögn af heimilislækninum Marc Schlosser og þeirri atburðarás sem verður eftir að einn sjúklinga hans deyr. Áleitnar spurningar vakna um hvað gerðist eiginlega í sumarhúsi sjúklingins og fjölskyldu hans, þar sem læknirinn dvaldi ásamt eiginkonu sinni og dætrum. Bókin er spennusaga um mannlegt eðli sem erfitt er að leggja frá sér, en hún er líka fyndin og býsna ágeng.